Hraðbraut tekur til starfa á ný

Þriðjudagur, 18. mars 2014 07:52
Prentvæn útgáfa

Menntaskólinn Hraðbraut tekur til starfa á ný!

Stúdentspróf á tveimur árum verður í boði á ný. Námið verður byggt á nýrri aðalnámskrá. Nám nemenda sem hafa lokið hluta náms í framhaldsskóla í samræmi við eldri námskrá verður þó metið í skólann.

Menntaskólinn Hraðbraut tekur til starfa næsta haust. Umsóknarfrestur er til 11. júní nk. Þeir sem hafa áhuga á að sækja um geta gert það hér eða á hlekkinn Umsókn um skólavist í valmyndinni hér til hliðar. Umsóknarferlið i Hraðbraut er aðskilið umsóknarferli í aðra framhaldsskóla og því geta þeir sem sækja um skólavist í Hraðbraut gert það þótt þeir sæki um skólavist í aðra skóla. Stjórnendur annarra skóla fá ekki vitneskju um umsóknir í Hraðbraut.

Allir sem sækja um skólavist verða boðaðir í viðtal í skólanum á tímabilinu 12. maí til 10. júní. Skólinn verður lokaður til 12. maí en verður opinn alla virka daga eftir það frá 9.00-12.00 og frá 14.00-16.00. Þeir sem vilja kynna sér námið í skólanum geta farið á heimasíðu skólans. Vakni einhverjar spurningar má senda tölvupóst á netfangið Þetta tölvupóstfang er varið gegn ruslpóstsþjörkum, Þú verður að hafa JavaScript virkt til að sjá það. . Öllum spurningum verður svarað.

Menntaskólinn Hraðbraut verður rekinn án fjárstuðnings ríkisins en ráðherra hefur hafnað því að gera þjónustusamning við skólann vegna fjárhags ríkissjóðs. Ekki er hægt að bíða með að hefja skólastarf þar til fjárhagur ríkisins batnar enda er áhuginn á skólanum mikill. Það þýðir að skólagjöld verða að standa undir rekstri skólans. Skólagjöld hækka því mikið og verða kr. 890.000 á hverju skólaári (tvær annir). Það er engu að síður mun lægri kostnaður á hvern „ársnema“ en í nokkrum öðrum framhaldsskóla á Íslandi. Fjárhagslegur ávinningur nemenda af því að ljúka háskólanámi fyrr en kostur er á öðrum skólum er mikill, miklu meiri en nemur skólagjöldunum.

Beiðni um viðurkenningu skólans bíður afgreiðslu hjá mennta- og menningarmálaráðherra. Hann hefur staðfest að skoðun hafi farið fram og beiðnin sé í samræmi við lög 92/2008 og reglugerð 426/2010. Skólinn fær því væntanlega viðurkenningu næstu daga.