Menntaskólinn Hraðbraut

  • Stækka leturstærð
  • Sjálfgefin leturstærð
  • Minnka leturstærð
Hraðbraut-fréttir

Hraðbraut gerir ríkinu tilboð

Hraðbraut gerir ríkinu tilboð

sem á sér ekki hliðstæðu

 

Menntaskólinn Hraðbraut hefur gert mennta- og menningarmálaráðherra tilboð um kennslu nemenda á framhaldsskólastigi sem á enga hliðstæðu. Þetta var gert í bréfi til ráðherra 18. apríl.

 

Eftirfarandi staðreyndir eru til marks um að tilboð Hraðbrautar er einstakt á sinn hátt.

 

1. Ríkinu býðst að nemendum verði kennt fyrir lægri upphæð en nokkur annar skóli á framhaldsskólastigi fær greidda með hverjum nemanda. Greiðsla vegna hvers ársnemanda í námi verði 480.000 kr. Sú upphæð er 21% lægri en lægstu greiðslur sem þekkjast til annarra framhaldsskóla í landinu en þær nema til samanburðar 609.000 kr. Er tilboðið enn athyglisverðara þegar haft er í huga að skólar ríkisins eru yfirleitt í miklum rekstrarerfiðleikum. Menntaskólinn Hraðbraut er rekinn með hagnaði.

2. Eigendur skólans bera persónulega ótakmarkaða ábyrgð á rekstri hans, þrátt fyrir að rekstur skólans sé formlega á vegum einkahlutafélagsins Hraðbrautar. Skólinn er í einkaeign hjónanna Borghildar Pétursdóttur og Ólafs Hauks Johnson skólastjóra. Rekstur einskis annars framhaldsskóla er með fjárhagslegri persónulegri ábyrgð skólastjórans.

 

Menntaskólinn Hraðbraut hefur frá stofnun árið 2003 staðið fyrir afar metnaðarfullu skólastarfi. Í skólanum ljúka nemendur stúdentsprófi á aðeins tveimur árum en ekki fjórum árum eins og yfirleitt er í framhaldsskólum.

 

Hraðbraut er hagkvæmasti framhaldsskóli Íslands þegar litið er til þess hve námstími nemenda er skammur og hve lágar greiðslur ríkisins fyrir hvern ársnemanda eru í samanburði við aðra framhaldsskóla. Sá munur yrði enn meira ef ríkið gengi að tilboði Hraðbrautar nú. Munar um minna fyrir ríkissjóð á erfiðum tímum.

 

Þrátt fyrir lágar greiðslur ríkissjóðs fyrir þjónustu Hraðbrautar hefur skólinn verið rekinn með hagnaði flest árin frá stofnun. Hagnaður af rekstri skólans árið 2010 var 10 milljónir króna þrátt fyrir að nemendur skólans væru 30% fleiri en ríkið greiddi fyrir. Fjárhagur skólans er traustur og engin ástæða til að ætla annað en framhald verði á því.

 

Skólinn hefur á að skipa einstöku úrvals starfsfólki sem vakir yfir hag skólans og hefur náð að gera skólann að einum besta og framsæknasta framhaldsskóla landsins.

 

Ólafur Haukur Johnson,

skólastjóri Hraðbrautar,

sími 822 0051.

Þetta tölvupóstfang er varið gegn ruslpóstsþjörkum, Þú verður að hafa JavaScript virkt til að sjá það.

 

Páskaleyfi

Páskaleyfi stendur yfir frá mánudeginum 18. apríl og kennsla hefst aftur þriðjudaginn 26.apríl

Athugið að þriðjudaginn 26.apríl er kennsludagur en ekki heimavinnudagur eins og venjulega.

Páskar

Gleðilega páska

 

Innritun í framhaldsskóla fyrir veturinn 2011-2012

Innritun í framhaldsskóla fyrir veturinn 2011-2012 er hafin í gegnum Menntagátt (http://menntagatt.is/innritun/) fyrir nemendur úr 10. bekk.

 

Vegna heiftarlegrar pólitískrar aðfarar að skólanum ríkir óvissa um skólastarfið í Menntaskólanum Hraðbraut. Þrátt fyrir þessa óvissu er tekið við umsóknum í skólann fyrir næsta vetur með eðlilegum hætti. Þegar staða skólans skýrist mun verða haft samband við alla umsækjendur. Sérstök athygli er vakin á því að, ef nemendur sem sækja um í Menntaskólanum Hraðbraut, vilja síðar breyta umsókn sinni geta þeir gert það í byrjun júní, en þá er hægt að breyta umsóknum í alla framhaldsskóla.

 

Ólafur Haukur Johnson skólastjóri

 

Til hamingju Sandra með sigurinn í söngkeppninni

Sandra Gunnarsdóttir sigraði í söngkeppni Hraðbrautar sem haldin var í skólanum 2. mars.

Söngkeppnin var undankeppni fyrir söngkeppni framhaldsskólanna og fjölmargir nemendur stigu á stokk. Sandra sem söng lagið Hiding my heart snart vafalítið streng í hjörtum allra sem hlýddu á hana flytja lagið.  Sandra verður fulltrúi Hraðbrautar í söngkeppni framhaldsskólanna sem fer fram á Akureyri 9. apríl n.k.

Við óskum sigurvegaranum til hamingju.

 

Nýr þjónustusamningur

Samið hefur verið um nýjan þjónustusamning mennta- og menningarmálaráðuneytis við

Menntaskólann Hraðbraut fram á mitt ár 2012

- að óbreyttu leggst síðan skólastarf þar af

 

Til fjölmiðla, 23. febrúar 2010

Frá Ólafi Hauki Johnson skólastjóra Menntaskólans Hraðbrautar

Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Menntaskólinn Hraðbraut hafa framlengt þjónustusamning skólans við ríkið fram til útskriftar núverandi nemenda á fyrra ári. Þetta var tilkynnt á sameiginlegum fundi nemenda og starfsfólks nú síðdegis.

Fyrir liggur að ráðherra er ekki reiðubúin að semja um frekari starfsemi í skólanum. Að óbreyttu blasir því við að rekstrinum verði hætt í núverandi mynd á árinu 2012. Tekið skal þó fram að ekkert í nýja þjónustusamningnum útilokar í sjálfu sér að nýnemar verði teknir í skólann næsta haust. Skólastjórn mun nú fjalla um stöðuna og meta framtíðarhorfur en augljóst er að afstaða ríkisins gjörbreytir forsendum fyrir skólarekstrinum.

Ljóst er að ríkisframlag til skólans, samkvæmt nýjum þjónustusamningi, mun engan veginn duga til að láta enda ná saman í rekstrinum fram á mitt ár 2012. Ég mun því taka persónulega ábyrgð á skólastarfinu og brúa bilið sem óhjákvæmilega myndast milli tekna og útgjalda.

Fyrir mig sem frumkvöðul að stofnun Menntaskólans Hraðbrautar og aðaleiganda hans er þessi niðurstaða í samningaviðræðum við ríkið auðvitað áfall, fyrst og fremst vegna hagsmuna nemenda og starfsfólks nú og síðar. Hin hliðin á málinu snýr svo að fjárfestingu í húsnæði og tækjum upp á hundruð milljóna króna sem óvissa ríkir eðlilega um. Hvorki sá þáttur málsins, né skarðið sem Hraðbraut skilur eftir sig í menntakerfinu, veldur ráðamönnum menntamála í landinu hins vegar áhyggjum. Markmið þeirra er einfaldlega að stöðva starfsemi Hraðbrautar, enda á einkarekstur hreint ekki upp á pallborðið hjá stjórnvöldum landsins nú um stundir. Gildir þá einu á hvaða sviði atvinnulífs eða samfélags einkarekstur á sér stað. Mennta- og menningarmálaráðuneytið og meirihluti menntamálanefndar Alþingis hugðust reyndar beita Ríkisendurskoðun fyrir sig gegn Hraðbraut en sú atlaga reyndist skeifhögg og hitti aðallega fyrir ráðuneytið sjálft og svo þingnefndina. Eftir stendur því að niðurstaða ráðuneytisins og menntamálanefndar er pólitísk aðför og ekkert annað.

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Ég leyfi mér að spá því að það muni sannast hvað Menntaskólann Hraðbraut varðar.

· Skólinn er vinsæll og hefur uppfyllt kröfur og þarfir þeirra sem vilja leggja hart að sér og ljúka menntaskólanámi á aðeins tveimur árum, á skemmri tíma en gerist annars staðar í framhaldsskólakerfinu.

· Kostnaður við að mennta nemendur Hraðbrautar er með því lægsta sem þekkist í framhaldsskólum landsins.

· Nemendur Hraðbrautar koma fyrr út á vinnumarkaðinn en aðrir framhaldsskólanemar og byrja að borga skatta fyrr en ella. Á þann hátt er skólinn þjóðhagslega hagkvæmasti framhaldsskólinn í landinu.

· Menntaskólinn Hraðbraut er faglega sterkur og hann náði því á ótrúlega skömmum tíma að komast í fremstu röð í framhaldsskólakerfi landsins.

Besti vitnisburðurinn um ágæti skólans eru þó auðvitað óteljandi ummæli fyrrum nemenda hans sem farnast vel í námi á háskólastigi og ánægja starfsfólks með að hafa skilað góðu starfi og mörgum fyrirmyndar einstaklingum út í lífið.

Fyrir hönd Menntaskólans Hraðbrautar

Ólafur Haukur Johnson skólastjóri

 


Síða 6 af 12

Skóladagatal

<<  Apríl 20  >>
 Mán  Þri  Mið  Fim  Fös  Lau  Sun 
    1  2  3  4  5
  6  7  8  9101112
13141516171819
20212223242526
27282930