Menntaskólinn Hraðbraut

  • Stækka leturstærð
  • Sjálfgefin leturstærð
  • Minnka leturstærð

Skólareglur

Sérstaða og fyrirkomulag kennslu

Reglur um útskrift frá Menntaskólanum Hraðbraut:

1. Til þess að fá útskrift sem stúdent frá Menntaskólanum Hraðbraut þarf nemandi að uppfylla eftirfarandi skilyrði: Hafa lokið 132 einingum í bóklegu námi og 4 einingum í íþróttum, alls 136 einingum.

2. Hafi nemandi hafið nám á fyrra námsári við skólann skal hann hafa lokið hið minnsta 123 einingum í bóklegu námi við skólann. Þetta merkir að nemandanum er að hámarki heimilt að ljúka 9 einingum í vali við aðra skóla en Hraðbraut.

3. Hafi nemandi hafið nám á síðara námsári við skólann skal hann hafa lokið hið minnsta 60 einingum í bóklegu námi við skólann til að fá útskrift. Jafnframt gildir að nemandanum er að hámarki heimilt að ljúka 6 einingum í vali við aðra skóla.

4. Hafi nemandi hafið nám á fyrra námsári við skólann og horfið frá námi á síðara námsárinu án þess að ljúka stúdentsprófi getur hann óskað eftir útskrift innan árs frá Menntaskólanum Hraðbraut ef hann hefur að hámarki lokið 9 eininga námi við annan skóla eftir að hann hvarf frá námi við Menntaskólann Hraðbraut.

5. Hafi nemandi hafið nám á síðara námsári við skólann og horfið frá námi án þess að ljúka stúdentsprófi getur hann óskað eftir útskrift innan árs hjá Menntaskólanum Hraðbraut ef hann hefur að hámarki lokið 6 eininga námi við annan skóla eftir að hann hvarf frá námi við Menntaskólann Hraðbraut.

6. Nemandi sem vill segja sig úr áfanga skal gera það skriflega á sérstöku eyðublaði eigi síðar en 10 dögum (á föstudegi í prófaviku) áður en lota hefst. Eftir það getur nemandi ekki sagt sig úr áfanga.

Skólastjóri getur veitt undanþágu frá ofangreindum skilyrðum.

Reglur um mætingar, próf, aukapróf, umsóknir á síðara námsár og tölvunotkun

Mætingareglur:

1. Við skólann er 100% mætingarskylda sem nær jafnt yfir kennslustundir og lestíma. Til þess að veita nemendum svigrúm vegna veikinda eða nauðsynlegra persónulegra verkefna svo sem læknisferða er notast við punktakerfi í skólanum. Punkta skal þannig eingöngu nota vegna veikinda og nauðsynlegra verkefna en ekki til tilefnislausrar frítöku.

2. Fyrir eina fjarvist á kennsludegi eða lesdegi fær nemandi 2 punkta og fyrir eina seinkomu fær nemandi 1 punkt. Fari nemandi yfir 12 punkta í tilteknum áfanga telst hann fallinn í áfanganum. Seinkoma eða fjarvist á lesdegi færist sem seinkoma eða fjarvist á það fag sem kennt var á sama tíma daginn á undan. Seinkoma í fyrsta tíma á þriðjudegi gefur þannig einn punkt í þeim áfanga sem kenndur er á sama tíma á mánudeginum.

3. Fari punktafjöldi yfir 12 skal nemandi skilyrðislaust og án dráttar og að eigin frumkvæði koma í viðtal hjá skólastjóra. Að öðrum kosti fær nemandi ekki að taka próf í viðkomandi áfanga innan skólans. Hafi nemandi komið í viðtal hjá skólastjóra svo skjótt sem við var komið og ef skólastjóri telur skýringar á fjarvistum fullnægjandi getur hann heimilað nemanda að þreyta próf eða upptökupróf. Gerist það að nemandi fer ítrekað fram úr heimilum fjarvistum eða ef skólastjóri telur skýringar á fjarvistum ekki fullnægjandi verður nemandanum vísað úr skóla. Slík brottvísun úr skóla skapar ekki rétt til endurgreiðslu skólagjalda.

4. Fari punktafjöldi fram úr heimild getur skólastjóri án sérstaks rökstuðnings óskað eftir að nemandinn undirgangist læknisskoðun hjá trúnaðarlækni skólans. Kostnað við slíka læknisskoðun skal nemandinn greiða.

5. Verði nemanda gert að þreyta sjúkra- eða endurtektarpróf í viku 6 er einungis mætingarskylda fyrir nemendur sem eru á mætingasamningi. Öðrum nemendum er frjálst að mæta í skólann til að undirbúa sig fyrir próf. Það er alfarið á ábyrgð nemanda að undirbúa sig fyrir sjúkra- endurtektarpróf.

6. Fyrir aukapróf umfram próf sem tekin eru á venjulegum próftíma (prófdegi eða aukaprófsdegi) greiðast kr. 10.000.

Meginatriðið er þetta: Ef nemandi fer framyfir 12 punkta af óútskýrðum fjarvistum og/eða seinkomum er hann dottinn úr viðkomandi fagi nema skólastjóri taki skýringar nemandans gildar. Nemandi fær merkta seinkomu komi hann til tíma eftir að 5 mínútur eru liðnar frá upphafi hans eða eftir að upplestri kennara er lokið, hvort sem er fyrr. Mæti nemandi eftir að 20 mínútur eru liðnar fær hann skráða fjarvist.

Reglur um próf:

1. Nemendum ber að mæta tímanlega til prófs. Próftími er ekki framlengdur ef nemandi mætir of seint heldur skerðist próftími hans sem töfinni nemur. Próf eru að jafnaði 90 mínútur en 120 mínútur fyrir þá sem eru með lengdan próftíma.

2. Nemendur með námskvíða eða námsörðugleika þurfa að ræða tímanlega við námsráðgjafa.

3. Nemendum er hleypt inn í prófstofu 5 mínútum áður en próf hefst. Miðað er við klukku á gangi.

4. Ekki má ræða við samnemendur eftir að hleypt hefur verið inn í stofu og ekki læra eða skoða glósur. Ekki má vera neitt á borði nema skriffæri og prófgögn. Pennaveski eiga að vera á gólfi við hlið borðsins, ef nemandi þarf að nálgast eitthvað í pennaveski þarf hann að fá leyfi yfirsetumanneskju.

5. Símar eru algjörlega bannaðir í prófum , það á að slökkva á þeim, skilja þá eftir í tösku/yfirhöfn eða hjá yfirsetufólki. Töskur/yfirhöfn á að geyma á einum stað í prófstofu.

6. Einungis er leyfilegt að hafa þau hjálpargögn sem tilgreind eru á próftökublaði.

7. Yfirsetufólk les upp og merkir við nemendur áður en próf hefst.

8. Nemendur mega ekki hefja próftöku fyrr en yfirsetumaður tilkynnir að leyfilegt sé að byrja.

9. Fagkennari kemur tvisvar í stofu á próftökutíma. Áætlaðir komutímar eru skráðir á töflu kennslustofunnar. Þurfi nemandi að fara á salerni kallar yfirsetumanneskja til aðila til fylgdar.

10. Óheimilt er að skila úrlausn fyrr en liðin er ein klukkustund af próftíma. Þegar úrlausn hefur verið skilað skal nemandi yfirgefa skólann eða fara inn á sal. Óheimilt að dvelja í miðrými.

11. Brot á þessum reglum veldur brottrekstri úr áfanga. Sé brot alvarlegt verður nemanda umsvifalaust vikið úr skóla, en alvarleika brotsins meta skólastjórnendur.

12. Einkunnir eru ekki gefnar upp fyrr en öllum prófum lotunnar er lokið. Leitast er við að birta einkunnir á MySchool ekki síðar en kl. 20.00 á sunnudegi að lokinni prófalotu. Nemendum er óheimilt að leita beint til kennara um niðurstöður prófa.

13. Nemandi sem er fallinn á mætingu missir próftökurétt. Nemendur bera sjálfir ábyrgð á því að fylgjast með fjarvistum sínum og að koma í viðtal hjá skólastjórrnendum. Skólastjórnendur bera ekki þá skyldu að kalla nemendur í viðtal.

14. Ef um veikindaforföll er að ræða er æskilegt að tilkynna þau á skrifstofu skólans áður en próf hefst í síma 565-9500 / Þetta tölvupóstfang er varið gegn ruslpóstsþjörkum, Þú verður að hafa JavaScript virkt til að sjá það. .

15. Upptöku- og sjúkrapróf eru haldin á föstudegi í viku 6 í hverri lotu. Nemendur sem taka fleiri en eitt sjúkra- /endurtektarpróf taka þau öll á föstudegi í viku 6. ATH: Það er ítrekað við nemendur að fylgjast vel með tímanum í prófum. Yfirsetufólk tilkynnir ekki munnlega né skrifar á töflu hversu mikill tími er eftir af próftíma.

Reglur um umsóknir á síðara námsár:

1. Þeir geta sótt um skólavist á síðara námsári sem fylgt hafa tilætluðum námshraða á fyrra námsári og eiga ekki fleiri en 6 einingum ólokið af námsefni fyrra árs í lok júní. Af þessum 6 einingum mega ekki vera fleiri en 3 einingar í tiltekinni námsgrein.

Reglur um tölvunotkun:

1. Aðgangur að tölvubúnaði, tölvuneti, gögnum og annarri þjónustu sem veitt er á tölvuneti Menntaskólans Hraðbrautar er ætlaður til eflingar námi, kennslu, og samskipta nemenda og kennara skólans.

2. Tölvubúnað, tölvunet, gögn og aðra þjónustu sem veitt er á tölvuneti Menntaskólans Hraðbrautar ber að nota heiðarlega, siðlega og löglega. Hver einstakur notandi ber ábyrgð á sinni notkun.

3. Nota ber aðeins þann tölvubúnað sem viðkomandi hefur leyfi til. Notandi skal auðkenna sig rétt í öllum samskiptum á tölvuneti Menntaskólans Hraðbrautar, þar með talin tölvupósts-, netfrétta- og skráaflutningssamskipti.

4. Notandi skal gera það sem í hans valdi stendur, til að tryggja öryggi tölvubúnaðar Menntaskólans Hraðbrautar. Virða ber friðhelgi annarra notenda og fara í einu og öllu eftir höfundaréttarákvæðum hugbúnaðar, forrita og gagna sem notuð eru. Virða ber reglur um tölvubúnað skólans.

5. Notandi skal gæta að umfangi gagna sem flutt eru, kostnaði því samfara og áhrifum sem skerða notkunarmöguleika annarra notenda.

6. Óheimilt er að reyna að tengjast tölvubúnaði Menntaskólans Hraðbrautar eða annarra aðila, sem tenging fæst til um net Hraðbrautar, með því að gefa upp notandanafn sem viðkomandi hefur ekki rétt til að nota. Óheimilt er að reyna að komast yfir notandanafn hjá öðrum notendum, innan Menntaskólans Hraðbrautar eða utan. Óheimilt er að veita öðrum aðgang að notandanafni sínu.

7. Óheimilt er að reyna að komast yfir gögn eða hugbúnað í eigu annarra, nema skýrt leyfi sé fyrir hendi. Óheimilt er að breyta eða reyna að breyta hugbúnaði eða gögnum hjá öðrum notendum eða hafa á annan hátt áhrif á notkunarmöguleika annarra notenda.

8. Óheimilt er að breyta, færa til eða fjarlægja vélbúnað, hugbúnað eða gögn sem eru í eigu Menntaskólans Hraðbrautar, nema með skýru leyfi eiganda. Óheimilt er að afrita hugbúnað eða gögn sem ekki eru í eigu viðkomandi notanda nema með skýru leyfi eiganda.

9. Brot á þessum reglum getur varðað brottvikningu úr skóla.

Eftirfarandi reglur hafa verið samþykktar af skólastjórn um próflausa áfanga og símatsáfanga við Menntaskólann Hraðbraut:

1. Missi nemandi úr meira en 25% kennslu, sem samsvarar fleiri en 6 kennslustundum í próflausu fagi telst hann hafa misst rétt sinn á próflausu mati í áfanganum. Ástæða fjarvista breytir engu um þetta ákvæði og hafa því vottorð ekkert gildi í próflausum áföngum. Litið er svo á að forsendur til að meta nemanda án prófs séu brostnar ef nemandi hefur verið fjarverandi sem nemur meira en fjórðungi kennslunnar, hver sem ástæða fjarvista er.

2. Nemandi sem fellur af ofangreindum sökum skal þreyta 100% lokapróf á upptökuprófadegi viðkomandi lotu. Hann skal sitja 3 daga af 4 við nám í skólanum og hefur ekki tækifæri á að gera heimanámssamning þann tíma.

3. Lokaprófið í áfanganum, sem gildir 100 %, skal vera mjög viðamikið og kennara er heimilt að prófa upp úr öllum undanfarandi áföngum í faginu, ásamt því að prófa úr námsefni áfangans. Próftíminn skal vera tvær klukkustundir.

Reglur um tóbaksnotkun og viðurlög við brotum á þeim:

Samkvæmt lögum er öll tóbaksnotkun bönnuð í framhaldsskólum. Í skólanum gilda því neðangreindar reglur.

1. Öll notkun tóbaks, þ.m.t. munntóbaks er óheimil innan veggja skólans.

2. Reykingar nemenda eru með öllu óheimilar við skólabygginguna, þ.m.t. við báða innganga skólans og á svæðinu í kringum skólann.

3. Reykingar nemenda eru einungis heimilar á sérmerktu svæði í námunda við suðvesturhorn skólahússins.

4. Brjóti nemandi reglur þessar mun hann fá áminningu.  Einungis verða gefna tvær áminningar. Við þriðja brot verður nemanda vísað úr skólanum.

 

 

Skóladagatal

<<  Mars 20  >>
 Mán  Þri  Mið  Fim  Fös  Lau  Sun 
        1
  2  3  4  5  6  7  8
  9101112131415
16171819202122
23242526272829
3031