Menntaskólinn Hraðbraut

 • Stækka leturstærð
 • Sjálfgefin leturstærð
 • Minnka leturstærð
Hraðbraut-fréttir

Að gefnu tilefni; frétt DV og fleira

Kæru nemendur, aðstandendur og starfsfólk.

Í frétt í DV í gær er fullyrt að skólanum verði lokað. Það er ekki rétt. Viðræður eru í gangi við menntamálaráðuneytið um framtíð skólans, en engar ákvarðanir hafa verið teknar. Öllum má þó vera ljóst að að skólanum er nú gerð hörð aðför enda samræmist einkarekstur skóla ekki viðhorfum sumra. Gildir þá einu þótt skólastarfið sé mjög farsælt og um sé að ræða þjóðhagslega hagkvæmasta framhaldsskóla landsins.

Fullyrt er í grein blaðsins „að opinberir aðilar, Ríkisendurskoðun og menntamálanefnd, hafa staðfest upplýsingar um óráðsíu í fjármálum skólans.“ Um þetta er ekki annað að segja en að sjaldan hafa önnur eins ósannindi birst á prenti, jafnvel þegar DV á í hlut. Fjármál skólans eru í stakasta lagi og rekstrarhorfur góðar.

Það sem helst hefur verið fundið að rekstri skólans í úttekt Ríkisendurskoðunar og í skýrslu menntamálnefndar er að skólinn hafi tekið við umframgreiðslum frá ríkinu og eigendur skólans tekið út arð. Vegna þessa vil ég koma eftirfarandi á framfæri:

1. Varðandi umframgreiðslurnar er það að segja að skólinn óskaði ítrekað eftir því að eðlilegt uppgjör á greiðslum færi fram en við því var ekki orðið. Því fór sem fór. Auðvitað hefði menntamálaráðneytið, sem hafði allar nauðsynlegar upplýsingar um málið, átt að tryggja að uppgjörið færi fram enda er það venja þegar gerður hefur verið samningur að sá sem telur á sig hallað hafi frumkvæði í þessum efnum, ekki síst þegar sá aðili einn bjó yfir nauðsynlegum upplýsingum um málið.

2. Annað sem skiptir máli varðandi umframgreiðslur ráðuneytisins til skólans er að þær hafa nú þegar, að mati skólans, verið greiddar til baka enda eru í skólanum mun fleiri nemendur en skólinn fær greitt fyrir. Ráðuneytið er þó á þeirrar skoðunar að full endurgreiðsla komi ekki fyrr en á næsta ári. Gildir einu hvort skólinn eða ráðuneytið hefur á réttu að standa í þessum efnum enda er það venja að framhaldsskólar jafni ofgreiðslur og /eða vangreiðslur til sín með þeim hætti að stilla nemendafjölda og greiðslur þannig saman að þetta sé nokkurn veginn jafnt þegar til lengri tíma er litið.

3. Varðandi arðgreiðslurnar þá er það að segja þær hafa á rúmlega 7 ára starfstíma skólans numið kr. 82 milljónum eða tæpum 12 milljónum á ári að jafnaði. Ef þessu er jafnað á þá tvo eigendur sem lengst af áttu skólann saman, Nýsi hf. og undirritaðan, þá eru þetta kr. 6 milljónir á ári til hvors eiganda. Undirbúningsvinna undirritaðs stóð í 8 ár áður en skólinn hóf störf, auk þess sem töluverð fjárútlát fylgdu stofnun skólans. Arðgreiðslum skólans hefur verið ætlað að umbuna fyrir þetta.

Ljóst er þó að hart verður þó tekist á um framtíð skólans á næstu vikum og mánuðum. Þá er mikilvægt að allir þeir sem vilja leggja skólanum lið láti í sér heyra enda vinna nú jólasveinar úti í bæ hörðum höndum við að blogga frá sér allt vit um málið til þess eins að skaða skólann og aðstandendur sem mest.

Skólinn mun senda frá sér yfirlýsingu eftir jól.

Að síðustu vil ég segja að mér finnst ákaflega leiðinlegt hvernig umræðan um skólann hefur þróast síðustu mánuði. Allt annað og betra eigið þið skilið.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs,

Ólafur Haukur Johnson
skólastjóri

 

Athugasemdir við fréttir Stöðvar 2 kvöldið 14. desember 2010

 

Athugasemdir við fréttir Stöðvar 2 kvöldið 14. desember 2010:

 

 1. Rétt er að fram komi að arðgreiðslur úr skólanum hafa að mestu skipst að jöfnu á milli eigenda skólans, Nýsis hf. sem átti helmings hlut í skólanum til ársloka 2008 og undirritaðs. Þegar arðgreiðslur voru inntar af voru stjórnendur í góðri trú um að afkoma skólans leyfði slíkt. Rekstur skólans sýndi hagnað þrátt fyrir að veruleg varúðarfærsla hafi verið færð til að mæta umfram greiðslum ráðuneytisins. Formlegt uppgjör við ráðuneytið fór þó ekki fram. Ekki var því vitað nákvæmlega hve miklar umfram greiðslurnar voru. Hefðu upplýsingar um það legið fyrir hefði arður að sjálfsögðu ekki verið greiddur með þeim hætti sem gert var.
 2. Það er rangt að skólinn sé rekinn með tapi. Þvert á móti er hagnaður af rekstri skólans enda er það nauðsynlegt til að skólinn geti haldið áfram starfi.

   

 3. Það er rétt að skólinn fékk umfram greitt á sínum tíma. Í athugasemdum menntamálaráðuneytisins við úttekt Ríkisendurskoðunar segir:

  a. „Eins og samningar við einkaskóla bera með sér hefur verið gengið langt í að mæta því sjónarmiði sem hefur verið ríkjandi, að einkaskólar með þjónustusamning skuli njóta sambærilegrar fyrirgreiðslu og opinberir skólar. Þannig var horft til þess fyrstu rekstarár Hraðbrautar, að um nýjan skóla vara að ræða sem hafði ekki fengið sérstök framlög úr ríkissjóði til þess að mæta upphafskostnaði eins og tíðkast um aðra skóla.“ Á þessum grundvelli, til að gæta jafnræðis við opinbera skóla, var endurkrafa hluta þessara umfram greiðslna látinn niður falla. Það var hins vegar ekki gert að beðni skólans.

   

 4. Það er rétt að lánaðar voru kr. 50 milljónir til tengdra aðila árið 2007. Það hefði hins vegar mátt koma fram í fréttinni að fé þetta var notað í skólabyggingar í Skotlandi sem Nýsir hf. hugðist byggja með ábyrgð skoskra sveitarfélaga. Því var þetta talin vera traust lánveiting. Við hrunið í október 2008 var vegna fjárskort íslensku bankanna bakkað út úr því verkefni og féð tapaðist. Til að tryggja endurgreiðslu lánsins svo Hraðbraut yrði ekki fyrir skakkaföllum ákvað ég að skuldlaust félag sem er 100% í eigu undirritaðs yfirtæki greiðslu lánsins. Lánið er að fullu í skilum. Hitt skal þó viðurkennt, svona eftir á að hyggja, að þetta var ekki heppileg notkun á fjármunum skólans og verður ekki endurtekin.

   

 5. Eina árið sem skólinn hefur ekki verið rekinn með hagnaði var árið 2009. Þá var tap kr. 12,7 milljónir. Það sem vantaði í frétt Stöðvar 2 var að það ár lækkaði ríkið greiðslur til skólans um kr. 30,2 milljónir til að mæta umfram greiðslum fyrri ára. Að auki var færð sérstök varúðarfærsla í bókum skólans til að mæta umfram greiðslum fyrri ára. Hefðu greiðslur verið í samræmi við nemendafjölda og ef ekki hefði komið til sérstök varúðarfærsla hefði skólinn skilað hagnaði það ár. Ályktun á þann veg að ekki sé rekstrargrundvöllur fyrir skólann út frá þessu er því einfaldlega röng. Rekstargrundvöllur skólans er góður.

   

 6. Í frétt Stöðvar 2 segir að frammistaða nemenda úr Hraðbraut í HÍ sé undir meðallagi. Þessi fullyrðing hefur ekki verið studd miklum gögnum enda var fjöldi Hraðbrautarstúdenta í HÍ lítill á fyrstu árum könnunarinnar. Á það má benda að samkvæmt þessum sömu tölum fara einkunnir stúdenta úr Hraðbraut hratt hækkandi í HÍ. Auðvitað er það einnig þannig að skólastarfið í Hraðbraut fer batnandi ár frá ári. Námsuppbygging við skólann hafði ekki verið reynd í heilsteyptu framhaldsskólanámi þegar af stað var farið og á þessum fáu árum sem skólinn hefur starfað hefur starfið þróast og batnað. Ég læt hins vegar fylgja hér með könnun sem gerð var í apríl sl. í HÍ sem sýnir að nemendur Hraðbrautar eru ánægðir með skólann sinn og telja námsgrunnurinn sem þeir fengu undir háskólanám sé mjög góður. Ánægja þeirra með námsgrunn sinn er svipuð og nemenda þeirra skóla sem oft eru taldir vera bestu skólar landsins. Ég hvet þig lesandi góður að kynna þér vel þessa könnun sem þú finnur hér.

   

 7. Það er ekki rétt sem fram kemur í fréttum Stöðvar 2 að þjónustusamningur skólans geri ráð fyrir að skólinn sinni aðeins bráðgerum 16-18 ára nemendum. Ekkert slíkt stendur í samningnum og frá upphafi skólastarfs hefur verulegur hluti nemenda verið eldri en 18 ára, enda er skólinn afar mikilvægur kostur fyrir þá sem ekki vilja verja fjórum árum í framhaldsskóla eða hafa misstigið sig á námsbrautinni. Þannig fáum við í Hraðbraut nemendur sem hafa hvergi annars staðar náð árangri. Með góðu skipulagi og þeim góða aðbúnaði sem skólinn veitir hefur ótrúlega mörgum tekist að finna sig í námi að nýju.

   

 8. Í fréttum Stöðvar 2 sagði: „Kjarasamningar hafa ekki verið gerðir við kennara og þeir eru á umtalsvert lægri launum en kennarar í öðrum menntaskólum. Kennarar sem gerðu athugasemdir við þetta voru reknir.“ Þetta er aldeilis ótrúleg „frétt“ og án nokkurs vafa runnin frá Kennarasambandi Íslands. Allt sem fram kemur í þessari „frétt“ er rangt. Vegna þessa er rétt að athuga:

   

  a. Að við alla kennara skólans eru gerðir ráðningarsamningar. Engin skylda er hins vegar að gera sérstaka „kjarasamninga“ fyrir kennara skólans. Hverjum og einum er frjálst að semja fyrir sig. Í upphafi þessa árs óskuðu kennarar skólans hins vegar eftir að ganga í KÍ og hafa staðið viðræður við sambandið um „stofnanasamning“ á milli KÍ og skólans fyrir starfsmenn. Hlé hefur verið gert á þeim viðræðum á meðan óvissa ríkir um framtíð skólans. Skipst hefur verið á skoðunum um ýmislegt í þessum viðræðum en enginn alvarlegur ágreiningur hefur komið upp.

   

  b. Fullyrðing um að laun kennara Hraðbrautar séu lakari en laun annarra kennara er einfaldlega ósönn. Hið rétta er að grunnlaun allra kennara Hraðbrautar eru hærri en þau væru ef greitt væri samkvæmt samningi KÍ við ríkið. Þessu til viðbótar fá kennarar skólans einnig greiddan sérstakan bónus fyrir góða frammistöðu.

   

  c. Menntaskólinn Hraðbraut hefur á skipa frábærum hópi kennara. Kennara sem mundu auðveldlega fá starf í öðrum skólum ef þeir kysu. Ef launin væru svona miklu betri annars staðar mundu þessir kennarar vafalítið kjósa að fara. Sannleikurinn er hins vegar sá að það hefur aðeins einu sinni gerst að kennari hafi sagt starfi sínu lausu við skólann til að fara í kennarastarf annars staðar. Þá flutti kennarinn sig, sem bjó utan Reykjavíkur, í starf sem var við hliðina á heimili viðkomandi. Ekkert annað dæmi er til, frá upphafi skólastarfsins, um að kennari skólans hafi sagt upp og farið í kennslustarf annars staðar.

   

  d. Enginn kennari hefur verið rekinn vegna athugasemda um laun enda væri slíkt ólöglegt. Fullyrðingar um slíkt eru óábyrgar og einfaldlega rangar.

   

 9. Í fréttum Stöðvar 2 sagði: „Á meðal þess sem þeir gerðu athugasemdir við er að 37% af rekstrarútgjöldum skólans fóru í launakostnað en í framhaldsskólum á vegum ríkisins er hlutfall launakostnaðar að jafnaði tvöfalt hærra eða um 75%. Annar kostnaður, til að mynda við húsaleigu er mun hærri en skólinn leigi húsnæði af skólastjóranum Ólafi Johnson.“ Vegna þessa er rétt að taka fram að kostnaðarhlutföll eru auðvitað með öðrum hætti í Hraðbraut en í skólum á vegum ríkisins enda er uppbygging skólans í svo mörgu frábrugðin. Húsaleiga er auðvitað einnig önnur en húsnæðisþáttur í rekstri ríkisskóla enda er húsnæðið þar í eigu ríkisins og því í litlum tengslum við eðlilega markaðsleigu.

 

Virðingarfyllst,

 

 

Ólafur Haukur Johnson

skólastjóri

 

Athugasemd vegna frétta

Formaður og varformaður menntamálanefndar hafa látið frá sér fara að mat nefndarinnar sé að ekki skuli samið um áframhaldandi starf skólans við núverandi eigendur. Úttekt nefndarinnar um starf skólans liggur þó ekki fyrir. Rétt er að minna á að lokaákvörðun um fjárstuðning við skólann er hjá ráðherra og Alþingi. Á meðan málið er á þessu stigi er ekki hægt að tjá sig frekar um það en unnið er farsælli lausn þess með hagsmuni nemenda, aðstandenda og starfsmanna að leiðarljósi.

Ólafur Haukur Johnson

skólastjóri

 

 

 

Heimsókn regnbogaindíánans 20. nóvember 2010

Vegleg hátið var haldin í Menntaskólanum Hraðbraut 20.nóvember s.l.þar sem nemendur,kennarar og fleiri velunnarar skólans tóku á móti regnbogaindíánanum Paul "Svanga Birni" Vasquez. Flutt var leikrit, sunginn var kórsöngur og fleira. Einnig var indíaninn krýndur verndari nemendafélagsins og afhjúpað var myndarlegt listaverk af honum málað af Snorra Halldóri Snorrasyni nemanda við skólann.

Hægt er að sjá fleiri myndir frá hátíðinni á síðunni http://hradbraut.123.is/

 

Tölvupóstur til þingmanna

Neðangreindan tölvupóst sendi undirritaður til þingmanna í gær, 17. nóvember:

Til þingmanna.

Menntaskólinn Hraðbraut er til umfjöllunar hjá nefndum Alþingis, sem í sjálfu sér er gott og eðlilegt. Skammt er vafalítið í að hann verði til umfjöllunar hjá þinginu sjálfu. Ég hef orðið þess áskynja að nokkurs misskilnings eða vanþekkingar gætir um málefni skólans, bæði innan þings og utan. Það er vissulega áhyggjuefni. Ég leyfi mér því að vekja athygli þína á fáeinum staðreyndum um málið í von um að þær verði forsendur umfjöllunar hins háa Alþingis.

1. Í úttekt Ríkisendurskoðunar á þjónustusamningi menntamálaráðuneytisins og Hraðbrautar er alvarleg villa í útreikningum. Eftir ítarlega yfirferð málsins eru menntamálaráðuneytið og Hraðbraut í meginatriðum sammála um niðurstöður útreikninga.

2. Í Menntaskólanum Hraðbraut eru mun fleiri nemendur núna en skólinn fær greitt fyrir samkvæmt þjónustusamningi. Skólinn lítur svo á að hann verði skuldlaus við menntamálaráðuneytið um næstu áramót (allar ofgreiðslur aftur til ársins 2004 að fullu endurgreiddar) en ráðuneytið telur að slíkur jöfnuður náist í mars 2011.  Á þessu tvennu er bitamunur en ekki fjár.

3. Hraðbraut er skuldlaust félag með peninga í sjóði. Fjárhagurinn er traustur og reksturinn sömuleiðis. Rekstrarlega á því framtíð skólans að vera björt.

4. Menntamálaráðuneytinu hefur verið gert tilboð um að greiðslur til skólans verði þær lægstu sem þekkjast í framhaldsskólakerfinu. Við teljum því traust rök fyrir fullyrðingu um að Hraðbraut sé og verði hagkvæmasti framhaldsskóli landsins fyrir ríkið.

5. Skólastarfið hefur gengið mjög vel og skólinn er nú þegar kominn í hóp bestu framhaldsskóla landsins.

Bestu kveðjur,


Ólafur Haukur Johnson

skólastjóri

 


Síða 8 af 12

Skóladagatal

<<  Mars 20  >>
 Mán  Þri  Mið  Fim  Fös  Lau  Sun 
        1
  2  3  4  5  6  7  8
  9101112131415
16171819202122
23242526272829
3031