Menntaskólinn Hraðbraut

  • Stækka leturstærð
  • Sjálfgefin leturstærð
  • Minnka leturstærð
Hraðbraut-fréttir

Gleðileg jól og heillaríkt nýtt ár!

Gleðileg jól og heillaríkt nýtt ár!

Menntaskólinn Hraðbraut og eigendur hans óska öllum fyrrverandi nemendum og starfsmönnum skólans gleðilegra jóla og heillaríks nýs árs.

Jafnframt þökkum við ykkur og öllum þeim öðrum sem hafa sent skólanum stuðningskveðjur og góðar óskir í baráttunni við stjórnvöld á liðnum árum.

Senn líður að því að kosnir verða nýir fulltrúar til að taka við stjórn landsins. Það verður í síðasta lagi í apríl n.k. Bindum við vonir við að þá veljist til starfa fyrir þjóðina einstaklingar sem hafa kjark til að semja við hagkvæmasta framhaldsskóla landsins, Menntaskólann Hraðbraut. Fyrir Íslendinga er mikilvægt að leitað verði allra leiða til að rekstur framhaldsskólanna verði sem hagkvæmastur og að framfarahugur fái að leiða allt starf skólanna.

Menntaskólinn Hraðbraut,

Ólafur Haukur Johnson skólastjóri

 

Útskrift 7. júlí 2012

Frá Ólafi Hauki Johnson skólastjóra:

Útskrift var hjá Menntaskólanum Hraðbraut í dag, 7. júlí. Útskriftin fór fram í Bústaðakirkju.

Að venju kom ég víða við í útskriftarræðu minni. Venjulega fjalla ég ekki um stöðu skólans heldur eingöngu um stöðu nýstúdentanna. Vegna stöðu skólans nú var ekki hjá því komist að fjalla um þau mál enda aðstæður allar afar óvenjulegar. Sagði ég m.a.:

„Stúdentahópurinn nú er sá smæsti frá upphafi. Kemur það til vegna þeirrar ódreng­ilega atlögu sem gerð hefur verið að skólanum og starfi hans öllu. Á á því er enginn vafi. Ekki hefur því framtíð skólans ein verið sköðuð. Líf um 30 nemenda í þessum árgangi; nem­enda sem nú hefðu útskrifast sem stúdentar ef aðstæður hefðu verið eðlilegar, hefur hreinlega verið lagt í rúst. Þar ofan á bætist að líf og framtíðar­möguleikar þeirra nemenda sem stunduðu nám á fyrra ári í skólanum hafa verið skaðaðir verulega. Ef ekki hefði komið til atlaga ráðherra að skólanum værum við að útskrifa 70 stúdenta hér í dag í stað 41 og á milli námsára í skólanum væri að flytjast stór og öflugur hópur. Án þess að víkjast sjálfur undan ábyrgð á stöðu þessa fólks og skólans vil ég segja að ábyrgð og framkoma ráðherra í málinu öllu er henni til minnk­unar með hætti sem seint mun gleymast. Við skólaslitin nú tekur við tímabil óvissu enda verður ekkert skóla­starf í skólanum næsta vetur. Áfram verður þó bar­ist fyrir tilvist hans og því að hann fái í fram­tíðinni að njóta jafnræðis við ríkis­reknu framhalds­skól­ana.

Með stofnun Menntaskólans Hraðbrautar var brotið blað í sögu íslenskra framhaldsskóla. Skólinn var sá fyrsti sem bauð nám til stúdentsprófs á aðeins tveimur árum. Síðustu ár hafa aðrir framhaldsskólar hamast við að bjóða valkosti sem stytta nám til stúdentsprófs. Nú er svo komið að aðeins er spurning um nokkur ár þar til allar námsbrautir til stúd­ents­prófs á Íslandi verða þriggja ára brautir eða styttri. Ávinningurinn sem af styttingu náms í framhaldsskóla leiðir verður mjög mikill eins öllum má ljóst vera. Ávinningurinn er þjóðar­innar allrar, en þó fyrst og fremst námsfólksins.

En það voru fleiri nýjungar sem fylgdu komu Hrað­brautar. Lotukerfið sem mótar starf skólans er einstakt og hefur gefist vel. Nemendur og starfsmenn eru mjög ánægðir með það. Enginn annar skóli býður nám eftir hliðstæðu kerfi en margir reyna nú að líkja eftir. Reyndar er ég þess fullviss að almennt skólastarf á fram­halds­skólastigi muni á næstu árum færast yfir í lotur hlið­stæðar þeim sem byggt er á í Hraðbraut.

Skólinn hefur náð góðum árangri og metnaður nemenda og starfsmanna er mikill. Fram hefur komið í könnun á meðal grunnnema í HÍ að 82,4% þeirra nemenda sem komu úr Hraðbraut voru mjög ánægðir með undir­búninginn sem þeir fengu í framhaldsskóla. Aðeins meðal stúdenta sem komu úr MR, MA, MH og Verzló var hlutfallið jafn hátt. Án þess að leggja mat á starf annarra framhaldsskóla tel ég þetta staðfesta að Menntaskólinn Hraðbraut hefur náð góðum árangri og sé í hópi metnaðarfyllstu framhaldsskóla landsins.

Í tilraunum mínum við að framlengja líf skólans í aðförinni gegn honum bauð ég ráðherra bókstaflega allt sem hugsanlegt var að bjóða nema að gefa henni skólann. Ég hef metið það svo, að það að gefa ríkinu skólann væri eina algerlega örugga leiðin sem tryggði að rekstrargrundvellinum yrði kippt undan honum til framtíðar. Þrátt fyrir góð boð mín til ráðherra hefur allt komið fyrir ekki. Hún hefur verið með öllu ófáanleg til að gera nýjan þjónustusamning við skólann. Staðan er því núna sú að skólastarf verður ekkert Hraðbraut næsta vetur.

Að því er varðar framtíð skólans eru tveir kostir í stöðunni. Annar er sá að leggja skólann af og gefa eða selja eigur hans. Það tel ég óraunhæfan kost með öllu, til þess er allt of mikið í húfi. Hinn kosturinn er sá að bíða nýrrar ríkisstjórnar. Teljum við það nú vera skásta kostinn í stöð­unni, ekki aðeins fyrir skólann sjálfan heldur ekki síður fyrir ríkið og þann mikla fjölda sem hefur áhuga á þeirri námsleið sem skólinn býður. Því höfum við ákveði að bíða fram yfir kosningar, sem verða næsta vor í síðasta lagi, í þeirri von að við fáum þá nýjan kjarkmikinn og víðsýnan menntamálaráð­herra.“

Eins og fram kom hér að framan mun ég ekki leggja árar í bát. Unnið verður að því að tryggja framtíð skólans.

Síðan sagði ég:

„Stafsfólki skólans öllu þakka ég ánægjulegt sam­starf og afar farsælt starf við krefj­andi verkefni í vetur. Ef ekki væri fyrir ykkar elju værum við ekki hér saman komin í dag til að út­skrifa þennan glæsilega hóp stúdenta. Ég þakka ekki einungis þeim starfsmönnum sem hér eru með okkur í dag; í þann hóp vantar marga sem ég vil einnig þakka. Starfsmönnum skólans hefur gengið vel að fá störf og fyrir það erum við eigendur skólans þakklátir. Allir sem starfað hafa í föstu starfi hjá skólanum hafa fengið nýtt starf og því eru flestir horfnir á braut sem óneitanlega er léttir úr því sem komið er. Nógu þungbær er okkur staða skólans þótt ekki bætist þar við áhyggjur af framtíð þess góða fólks sem ljáð hefur skólanum krafta sína með óeigingjörnum hætti undafarin ár.

Þegar á móti hefur blásið eins og gert hefur í starfi skólans er mikilvægt að eiga góða að. Þar hef ég átt ótrúlega trausta bakhjarla sem hafa stutt skólann og mig í hverju spori. Ég þakka stjórn skólans fyrir frábært starf. Að öðrum stjórnarmönnum ólöstuðum hefur verið ein­stakur styrkur í formanni stjórn­arinnar, Pétri Birni Péturssyni, sem hefur unnið mikið og einstakt starf fyrir skólann á undanförnum árum.

Einnig hefur fjölskylda mín öll stutt vel við skólann og bak mitt. Sérstaklega vil ég þar nefna börnin mín og konuna mína. Þakka ég þeim frábæran stuðning sem hefur verið algerlega ómetanlegur. Ég hef sagt það hér oft áður að þrátt fyrir að konan mín sé ekki alltaf áberandi innan skólans þá eru þær ekki margar stóru ákvarðanirnar sem teknar eru við stjórn hans án sam­ráðs við hana.“

Og að lokum:

„Ég bið þess að Guð og gæfa fylgi okkur öllum í framtíðinni. Látið drengskap og heilindi verða vega­nesti ykkar og munið að þeir sigrar sem þannig eru unnir eru einu sigrarnir sem máli skipta og spor mörkuð með heiðarlegu og drengilegu lífstarfi eru einu sporin sem ekki fennir í að leik loknum. Innilega til hamingju með stúd­entsprófið!

Ég segi hér með Menntaskólanum Hraðbraut slitið ... að sinni!“

Viðurkenningu fyrir námsárangur hlutu: Sheni Nicole Buot Navarro fyrir hæstu meðaleinkunn á málabraut 8,72 og Gadidjah Margrét Ögmundsdóttir fyrir hæstu einkunn af náttúru­fræði­braut 9,07. Hún er jafnframt dúx skólans.

 

 

Útskrift stúdenta 2012

Útskrift stúdenta 2012

Útskrift stúdenta frá Mennta­skólanum Hrað­braut verður laugardaginn 7. júlí 2012, kl: 10:30 í Bústaðakirkju. Mæting stúdentsefna er kl. 9.45 í kirkjuna.

Athöfninni verður lokið um kl. 12.00.


Ólafur Haukur Johnson

skólastjóri

 

 

Áríðandi tilkynning!

 

Tilkynning frá Ólafi Hauki Johnson,

skólastjóra Menntaskólans Hraðbrautar,

6. júní 2012


Skólastarf í Hraðbraut leggst af

Við blasir að starfsemi Menntaskólans Hraðbrautar verður hætt nú að skólaárinu loknu, í bili að minnsta kosti. Reynt verður að aðstoða nemendur á fyrra námsári til að tryggja þeim skólavist annars staðar eins farsællega og kostur er. Sama á við um kennara og aðra starfsmenn Hrað­brautar sem margir hafa leitað á aðrar slóðir, með góðum árangri í flestum tilvikum.

Ljóst er að þegar skólanum var synjað um nýjan þjónustusamning var um aðför stjórnvalda að einkarekstri að ræða. Sú aðför hefur heppnast vel. Tjónið sem af þessu hlýst hjá nemendum, starfsmönnum og eigendum er þungbært. Síðast en ekki síst er tjón þjóðfélagsins mikið.

Eigendur Menntaskólans Hraðbrautar lýsa því ekki yfir að skólanum verði lokað heldur að reksturinn leggist af um sinn. Eigendur skólans munu áfram reyna að ná samkomulagi við yfirvöld um rekstur skólans til frambúðar. Ljóst er að skólinn hefur sýnt að hann gegnir mikilvægu hlutverki. Því  er mikilvægt  að tryggja varanlega framtíð hans.


Staðreyndir í fáum orðum

1. Menntaskólinn Hraðbraut hefur starfað farsællega síðan 2003 og útskrifað um 400 stúdenta.

2. Menntaskólinn Hraðbraut útskrifar stúdenta á tveimur árum en meðalnámstími til stúdentsprófs í framhaldsskóla á Íslandi er hins vegar 5,5 ár.

3. Faglegt starf skólans hefur gengið ákaflega vel. Háskólanemar af Hrað­braut telja að námslegur undirbúningur þeirra hafi verið mjög góður.

4. Í ljósi þess að stúdentar frá Menntaskólanum Hraðbraut eru mun skemmri tíma í fram­halds­skóla en stúdentar annarra skóla lengist starfs­ævi þeirra. Þeir greiða skatta og skyld­ur til ríkisins mun lengur en aðrir og því skal fullyrt að enginn framhaldsskóli nálgast Hraðbraut hvað varðar þjóðhagslega hagkvæmni starfseminnar.

5. Greiðslur ríkisins vegna nemenda Hraðbrautar eru hliðstæðar því lægsta sem þekkist í skólum ríkisins.

6. Á árinu 2010 voru heildarlaun kennara í Hraðbraut um 20% hærri en laun kennara í skólum ríkisins.

7. Menntamálaráðherra bar fyrir sig skýrslu Ríkisendurskoðunar þegar látið var upp­haflega til skarar skríða gegn Hraðbraut. Ríkisendurskoðun gagnrýndi vissulega tiltekna þætti í rekstri Menntaskólans Hraðbrautar í úttekt sinni en vinnuaðferðir sjálfs mennta- og menningarmála­ráðuneyt­isins sættu þar samt mun meiri og alvarlegri gagnrýni. Ráðuneyt­ið kaus hins vegar að hafa úttektina að skálkaskjóli þegar það ákvað að hætta að kaupa þjónustu skólans og leggja þar með niður starfsstöð 200 nemenda og 20 starfsmanna.

8. Ríkisendurskoðandi, forystumenn allsherjar- og menntamálanefndar og fjölmargir þingmenn eru hlynntir því að gerður verði nýr þjónustusamningur við Menntaskólann Hraðbraut.

9. Menntaskólinn Hraðbraut hefur boðist til að veita ríkinu afslátt af hverju nemendaígildi í skólanum til að ríkið/skattgreiðendur nytu þess að hann er einn hagkvæmasti skóli landsins. Enginn áhugi var á tilboði skólans. Í slíkum viðbrögðum birtast býsna sérstök viðhorf til meðferðar og ráðstöf­unar opinberra fjármuna.

10. Rekstur Hraðbrautar hefur gengið vel og skólinn er skuldlaus. Allir reikn­ingar skólans hafa frá upphafi verið greiddir á réttum tíma. Því til viðbótar hafa eigendur skólans gengið í persónulega fjárhagsábyrgð fyrir rekstri skólans.

Frekari upplýsingar veitir Ólafur Haukur Johnson í síma 565-9500 og 822-0051.

 

 

Innritun fyrir haustönn 2012

 

Innritun fyrir haustönn 2012

Innritun fyrir haustönn 2012 stendur til 8. júní nk. Nemendur sem vilja sækja um skólavist í Menntaskólanum Hraðbraut næsta vetur eiga að sækja um hér á heimasíðunni. Ekki er hægt að sækja um í gegnum www.menntagatt.is. Umsókn í Menntaskólann Hraðbraut hefur ekki áhrif á umsóknir í aðra skóla. Nemendur geta því sótt um skólavist hér og sótt um skólavist í tveimur skólum í gegnum www.menntagatt.is.

Stjórnendur Menntaskólans Hraðbrautar vilja taka fram að á þessu stigi er ekki víst að skólinn muni starfa næsta vetur. Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum, hefur skólinn ekki náð samningum við mennta- og menningarmálaráðuneytið um fjárstuðning næsta skólaár. Staða þeirra mála mun þó skýrast áður en umsóknarfrestur rennur út þann 8. júní nk.

 

 

 


Síða 2 af 12

Skóladagatal

<<  Janúar 20  >>
 Mán  Þri  Mið  Fim  Fös  Lau  Sun 
    1  2  3  4  5
  6  7  8  9101112
13141516171819
20212223242526
2728293031