Menntaskólinn Hraðbraut

 • Stækka leturstærð
 • Sjálfgefin leturstærð
 • Minnka leturstærð
Hraðbraut-fréttir

Regnbogaindíáninn væntanlegur

Þann 17. nóvember næstkomandi mun nemendafélag Menntaskólans Hraðbrautar bjóða velkominn regnbogaindíánann svokallaða, Paul „Svanga Björn“ Vasquez, en hann hefur samþykkt að gerast verndari nemendafélags skólans. Haldin verður mikil gleðihátíð þar sem skólinn verður skreyttur í öllum regnbogans litum. Flutt verður frumsamið leikrit, sunginn kórsöngur, uppistandari mætir á svæðið og margt fleira verndaranum til heiðurs.

Paul er svokölluð YouTube stjarna sem varð heimsfrægur á einni nóttu eftir að hafa sett myndband á YouTube. Hann er af indíánaættum og í sterkum tengslum við náttúruna. Því varð hann himinlifandi og nánast grátklökkur þegar hann náði mynd af tvöföldum regnboga. Myndbandið sjálft var ekkert listaverk en fölskvalaus gleði og hrifning Vasquez var svo einlæg og smitandi að milljónir manna hrifust með.

Paul mun vera hér á landi frá 16.-20.nóvember. Á meðan heimsókn Paul stendur er stefnt að því að fara með hann út á land og leyfa honum að sjá helstu náttúruperlur Íslands. Paul sem hefur aldrei ferðast út fyrir Norður-Ameríku segist hlakka mikið til, bæði að sjá landið og hitta landann.

 

8.nóvember 2010

Í dag hófst lota þrjú hjá fyrri árs nemendum og lota tíu hjá því síðara.
Það er jafnframt lokalotan fyrir jól.

 

Dagsferð á Reykjanes 5.október 2010

Hinn 5. október síðastliðinn fór fjölmennur hópur nemenda úr Hraðbraut í vettvangsferð að Reykjanesvita. Aðalerindið var að ganga á staðinn þar sem olíuflutningaskipið Clam strandaði í febrúarmánuði árið 1950. Fjöldi skipverja fórst.

Hannes Sigfússon var þá aðstoðarvitavörður í Reykjanesvita. Hann tók þátt í björgunarstörfunum og nýtti sér þá lífsreynslu þegar hann ritaði skáldsöguna Strandið en nemendur á fyrra ári skólans hafa lesið söguna nú í haust.


Gönguferðin hófst skammt frá vitanum og fyrst var heilsað upp á umdeilt listaverk af geirfugli sem þar er að finna. Einnig voru kannaðar leifar af fyrsta vitanum sem reistur var á Íslandi, árið 1878.


Þá var haldið áfram á strandstaðinn í fersku sjávarlofti. Skipsflakið er löngu horfið en enn má sjá þar tvo járnkróka sem reknir voru niður í bergið og notaðir við björgunarstörfin.


Ferðin tókst í alla stað vel. Fararstjóri var Bjarki Bjarnason íslenskukennari og tók hann meðfylgjandi mynd.

 Dagsferð á Reykjanes 5.október 2010

Hægt er að sjá fleiri myndir frá ferðinni inná www.123.is/hradbraut

 

 

Tölvuskeyti og bréf til þingmanna

Frá Ólafi Hauki Johnson skólastjóra:

Hér að neðan eru tölvuskeyti og bréf sem ég ritaði til alþingismanna sl. föstudag.

Á föstudag, 22. október, ritaði ég þingmönnum skeyti með þessum texta: „Rétt í þessu voru mér að berast þær upplýsingar að þær ranghugmyndir væru meðal þingmanna að skólinn hafi á einhverjum tímapunkti gefið upp rangan nemendafjölda til ráðuneytisins. Ekkert slíkt hefur nokkru sinni gerst. Þar hefur alltaf verið rétt og heiðarlega að málum staðið og skólinn hefur aldrei nokkru sinni veitt ráðuneytinu villandi eða rangar upplýsingar. Þetta fullyrði ég að við lögðum drengskap.

Ólafur Haukur Johnson“

 

Skömmu áður þennan sama föstudag hafði ég ritað þingmönnum neðangreint bréf:

Mikilvægir efnispunktar um Menntaskólann Hraðbraut

- að gefnu tilefni

 

Til alþingismanna 21. október 2010

Frá skólastjóra Menntaskólans Hraðbrautar

 

Í umræðum á Alþingi í gær var látið að því liggja að saknæmt athæfi hafi átt sér stað í Mennta­skólanum Hraðbraut. Það er ekki rétt og nærtækast er að vísa til nýlegrar greinargerðar Ríkis­endurskoðunar, eftirlitsstofnunar sem heyrir undir Alþingi.

Vegna þessa vil ég undirritaður, skólastjóri Menntaskólans Hraðbrautar, engu að síður taka fram eftirfarandi:

Eins fram er hefur komið hefur skólinn fengið ofgreitt frá menntamála­ráðuneytinu um tiltekið árabil. Skýringar á því liggja fyrir.

1. Útreikningur á uppgjöri menntamálaráðuneytisins og Hraðbrautar fyrir árin 2004-2009 fór í fyrsta sinn fram föstudaginn 15. október 2010. Allir útreikningar fram til þess tíma reyndust rangir, þar með talinn útreikningur Ríkisendurskoðunar.

2. Fulltrúar ráðuneytisins og undirritaður eru vissulega ekki fyllilega sammála um hvernig reikna skuli uppgjör á þjónustusamningnum en þar munar ekki miklu á niðurstöðum.

3. Niðurstöður útreikningsins eru eftirfarandi, eins og málið lítur út af sjónarhóli undir­ritaðs:

Uppgjör fyrir árið 2004 sýnir að Hraðbraut fékk ofgreiddar 21,8 millj. kr.

Uppgjör fyrir árið 2005 sýnir að Hraðbraut fékk ofgreiddar 26,8 millj. kr.

Uppgjör fyrir árið 2006 sýnir að Hraðbraut fékk ofgreiddar 20,6 millj. kr.

Uppgjör fyrir árið 2007 sýnir að Hraðbraut fékk ofgreiddar 10,0 millj. kr.

Uppgjör fyrir árið 2008 sýnir að Hraðbraut fékk ofgreiddar 11,5 millj. kr.

Uppgjör fyrir árið 2009 sýnir að Hraðbraut vantar frá ríkinu 26,0 millj. kr.

Áætlun fyrir árið 2010 sýnir að Hraðbraut vantar frá ríkinu 65,8 millj. kr.


Yfirlitið sýnir með öðrum orðum að Hraðbraut fékk mest ofgreitt árin 2004 til 2008, alls 90,7 millj. króna. Menntamálaráðuneytið hefur aðeins gert kröfu um uppgjör fyrir árin 2007 til 2009 vegna þess að það taldi (áður en endanlegur útreikningur lá fyrir) að um ofgreiðslur til Hraðbrautar hefði verið að ræða. Þegar heildarmyndin liggur nú fyrir kemur hins vegar í ljós að ríkið hefur ekki ofgreitt heldur vangreitt og munar þar samtals 4,5 millj. króna fyrir árin 2007-2009.

Þrátt fyrir að menntamálaráðuneytið hafi aðeins gert kröfu um uppgjör fyrir 2007-2009 liggur fyrir að Hraðbraut muni endurgreiða ríkinu allt sem ofgreitt var á árunum þar á undan og mun gera upp að fullu fyrir lok árs 2010. Þá er miðað við uppgjör í samræmi við framangreint yfirlit.

Ég vil einnig taka skýrt fram að skólinn hefur aldrei óskað eftir að fá meira greitt en honum bar. Þannig er staðfest í greinargerð Ríkisendurskoðunar að skólinn hafi ítrekað óskað eftir því að fram færi uppgjör með formlegum hætti á milli skólans og menntamálaráðuneytisins. Sú málaleitan bar ekki árangur og í þeirri staðreynd liggur ástæða uppsafnaðrar ofgreiðslu framlaga til skólans.

Menntaskólinn Hraðbraut hefur skilað miklum árangri frá stofnun og hefur aldrei verið vinsælli en nú. Þar starfa nú alls 225 manns, 200 nemendur og 25 kennarar og aðrir starfsmenn.

Rétt er að vekja sérstaka athygli þeirra, sem með opinbert fjárveitingavald fara, að kostnaður við að mennta nemendur Hraðbrautar er með því lægsta sem þekkist í framhaldsskólum landsins.

Við mat á hagkvæmni skólans skal einnig hafa í huga að nemendur ljúka námi sínu á tveimur árum skemmri tíma en aðrir framhaldsskólanemar. Þeir fara því fyrr út á vinnumarkað og hefja þar með skattgreiðslur tveimur árum fyrr en aðrir.

Þegar allt þetta er haft í huga er ljóst að rekstur Hraðbrautar er mun hagkvæmari fyrir ríkið en rekstur nokkurs annars framhaldsskóla í landinu.

Síðast en ekki síst skal það nefnt hér að skólinn hefur boðið menntamálaráðuneytinu að samið verði um lægri greiðslur með hverjum nemenda en greitt er með nemendum til annarra skóla.

Óumdeilt er að faglegt starf Hraðbrautar er gott og skólinn hefur á ótrúlega skömmum tíma náð því að skipa sér í hóp bestu framhaldsskóla landsins. Sá árangur er enn athyglisverðari þegar haft er í huga að stúdents­prófi ljúka nemendur Hrað­brautar á aðeins tveimur árum en ekki fjórum árum eins og í öðrum skólum.

Menntaskólinn Hraðbraut fagnar umræðum um starfsemi sína en biður í vinsemd um að staðreynd­um sé þar til haga haldið og sanngirni gætt.


Virðingarfyllst,

Ólafur Haukur Johnson

skólastjóri

 

Viðbrögð við úttekt Ríkisendurskoðunar

Viðbrögð vegna greinargerðar Ríkisendurskoðunar

um framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut

Frá Ólafi Hauki Johnson skólastjóra, 1. október 2010

Niðurstöður Ríkisendurskoðunar, í greinargerð um framkvæmd þjónustusamnings við Mennta­skólann Hraðbraut, eru umhugsunarefni, bæði fyrir skólann og menntamála­ráðuneytið. Eftir­farandi eru fyrstu viðbrögð mín við greinargerðinni og hugmyndir um hvernig brugðist skuli við í þágu skólans sjálfs, tæplega 200 nemenda hans og 25 starfsmanna.

 • Það er fagnaðarefni að Ríkisendurskoðun segist engar athugasemdir hafa við sjálfan þjónustusamning Hraðbrautar og ríkisins.
 • Framkvæmd samningsins er hins vegar aðfinnsluverð og Ríkisendurskoðun beinir þar spjótum sínum mjög að menntamálaráðuneytinu fyrir að hafa ekki sinnt uppgjöri við skólann og afskrifað í heimildarleysi hluta skuldar skólans við ríkið.
 • Ríkisendurskoðun staðfestir að Hraðbraut vissi af ofgreiðslu til skólans úr ríkissjóði vegna þess að nemendur voru í raun færri en áætlað var. Jafnframt er staðfest að skólastjórnendur reyndu að meta skuld skólans við ríkissjóð með því að leggja til hliðar fjármuni „í varúðarskyni“ vegna uppgjörs sem ekki var farið í þrátt fyrir að óskað hafi verið eftir því af hálfu skólans.
 • Skuld skólans við ríkið, samkvæmt greinargerð Ríkisendurskoðunar, er vissulega mun hærri en aðstandendur skólans höfðu áætlað en skólinn hefur nú þegar lagt til við menntamálaráðuneytið að samið verði um uppgjör skuldarinnar. Jafnframt verði nánasta framtíð skólans tryggð með þjónustusamningi til þriggja ára.
 • Ríkisendurskoðun staðfestir að ekkert mæli gegn því, hvorki í þjónustusamningi skólans við ríkið né í lögum eða fyrirmælum almennt, að greiddur sé arður til eigenda skólans. Hins vegar liggur jafnljóst fyrir nú að arður hefði ekki verið greiddur út á þennan hátt ef nákvæmar upplýsingar hefðu legið fyrir um uppgjörsstöðu skólans gagnvart ríkinu.
 • Ríkisendurskoðun bendir réttilega á að það „geti ekki talist æskilegt“ að skólinn hafi á sínum tíma lánað fé til starfsemi sem tengdist starfsemi Hraðbrautar ekki á nokkurn hátt. Þessi lánastarfsemi var birtingarmynd hugsunarháttar og hugmynda sem voru áberandi í samfélaginu og heyrir sögunni til.
 • Ályktun Ríkisendurskoðunar er sú að „fjárhagslegar forsendur fyrir áframhaldandi rekstri skólans séu afar hæpnar að öðru óbreyttu.“ Sú ályktun er að vísu umdeilanleg sem slík en aðalatriðið er að skapa þá skólanum forsendur til rekstraröryggis í framtíðinni í ljósi þess að starfsemin hefur verið farsæl alla tíð, fleiri nemendur eru þar nú en nokkru sinni fyrr, rekstraráætlun gerir ráð fyrir hagnaði og skólinn hefur frá upphafi staðið við allar fjárhagslegar skuldbindingar sínar. Jafnframt þarf að hafa í huga að:
  1. Skólinn hefur á ótrúlega skömmum tíma náð að skipa sér í hóp bestu framhaldsskóla landsins. Í því sambandi má nefna að könnun á meðal grunn­nema Háskóla Íslands í apríl 2010 kom fram að 82,4% nemenda, sem komu úr Menntaskólanum Hraðbraut, voru mjög ánægð með undirbúning sinn fyrir háskólanám. Aðeins nemendur fjögurra annarra framhaldsskóla (MR, MA, MH og Versló) voru jafn ánægðir með undirbúning sinn. Þessi góði árangur er enn athyglisverðari þegar haft er í huga að stúdentsprófi ljúka nemendur Hrað­brautar á aðeins tveimur árum en ekki fjórum árum eins og í öðrum skólum.
  2. Skólastjóri hefur tilkynnt menntamálaráðuneytinu að hann sé reiðubúinn að leggja skólanum til fjármuni svo tryggja megi framtíðarrekstur og semja um uppgjör skulda skólans við ríkissjóð.
  3. Fjárhagsleg endurskipulagning þarf að haldast í hendur við endurnýjun þjón­ustu­­samnings Hraðbrautar við ríkið.

Ólafur Haukur Johnson

skólastjóri


Skýrsla Ríkisendurskoðunar: http://www.rikisend.is/fileadmin/media/skyrslur/hradbraut.pdf


 


Síða 9 af 12

Skóladagatal

<<  Janúar 20  >>
 Mán  Þri  Mið  Fim  Fös  Lau  Sun 
    1  2  3  4  5
  6  7  8  9101112
13141516171819
20212223242526
2728293031