Menntaskólinn Hraðbraut

  • Stækka leturstærð
  • Sjálfgefin leturstærð
  • Minnka leturstærð
Hraðbraut-fréttir

Breytingar á stjórn Menntaskólans Hraðbrautar

Breytingar á stjórn Menntaskólans Hraðbrautar:

Pétur Björn Pétursson hefur látið af starfi í stjórn Menntaskólans Hraðbrautar að eigin ósk. Er Pétri Birni þakkað gott starf í þágu skólans.

Stjórn skólans skipa nú: Bjarni Jónsson, Höskuldur Ásgeirsson og Helga Guðrún Johnson,  varamaður var Benedikt Sveinsson.

Ólafur Haukur Johnson skólastjóri


 

Ágætu stuðningsmenn Menntaskólans Hraðbrautar.

Ágætu stuðningsmenn Menntaskólans Hraðbrautar.

Þetta er síðustu skilaboðin sem ég skrifa á heimasíðu Menntaskólans Hraðbrautar í bili. Mun ég eftirleiðis halda mig við mína persónulegu Facebooksíðu. Þeir sem vilja fylgjast með geta litið þar við.

Ég hef fengið fjölmargar fyrirspurnir um hvort skólinn sé endanlega hættur. Stundum er þetta frá fólki sem vill kaupa eigur skólans á eðlilegu verði en stundum vill fólk aðeins gera gera „góð kaup á brunaútsölunni“ eða jafnvel fá eigur hans gefnar. Til að eyða því máli vil ég segja hér að ég hef ákveðið að bíða með brunaútsöluna.

Hinir sem spyrja um skólann eru þeirrar skoðunar hann hafi verið mikilvæg nýjung og nauðsynlegur valkostur í framhaldsskólaflórunni. Hvetja þeir mig til að gefast alls ekki upp. Ég eigi enn að leita leiða til að ná nýjum þjónustusamningi við ríkið enda haldi þau rök ekki vatni sem ráðherra hefur gefið fyrir því að gera ekki nýjan samning við skólann. Ráðherra hefur sagt að ekki sé til peningur til að gera samning við skólann vegna þess að þann pening þurfi að taka frá öðrum skólum. Það er ekki rétt.

Það vita þeir sem þekkja til reksturs framhaldsskóla á Íslandi að ríkið greiðir skólum fyrir kennslu þeirra nemenda sem þar stunda nám og þreyta próf. Ekki er greitt með öðrum. Það merkir auðvitað að með þeim nemendum sem stunduðu nám í Hraðbraut var ekki greitt annars staðar..... hvergi! Allt tal um að ekki séu til peningar til að bjóða valkost eins og Hraðbraut var lýsir annað hvort vanþekkingu á því hvernig kerfið virkar eða er vísvitandi útúrsnúningur. Greiðslur til Hraðbrautar vegna hvers stúdents voru þær lægstu sem þekkjast. Enginn skóli á landinu útskrifaði stúdenta fyrir jafn lága upphæð. Að auki bendum við á að ævitekjur stúdenta Hraðbrautar eru, vegna lengri starfsævi að námi loknu, 5% hærri en stúdenta annarra skóla. Skatttekjur ríkisins vegna þessara auknu ævitekna nema mun hærri upphæð en ríkið greiddi vegna náms þeirra. Ríkið hefur því beinan fjárhagslegan ávinning af því að sem flestir stundi nám í skóla eins og Hraðbraut. En það er ekki bara ríkið sem hefur af því ávinning, ávinningur nemendanna er enn meiri.

Að síðustu minni ég það augljósa sem virðist alveg gleymt: Skólakerfið er til fyrir nemendur þessa lands, ekki kennara, ekki starfsmenn ráðuneytisins og ekki fyrir ráðherra né stjórnmálaflokka. Þarfir nemenda eiga að ráða ferðinni, ekki annarra. Að gefa nemendum ekki þann möguleika að ljúka framhaldsskóla á skemmsta tímanum, tveimur árum eins og Hraðbraut bauð, er vanvirðing við þá sem skólakerfið á að þjóna.

Ólafur Haukur Johnson skólastjóri

 

 

 

Nýr ráðherra mennta- og menningarmála

Nýr ráðherra mennta- og menningarmála.

Í dag tekur Illugi Gunnarsson við mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Menntaskólinn Hraðbraut býður hann velkominn til starfa og óskar honum gæfu og blessunar við vandsöm verk.

Ólafur Haukur Johnson skólastjóri

 

Nú er framfara þörf í framhaldsskólum!

Neðangreind grein eftir Ólaf Hauk Johnson skólastjóra Hraðbrautar birtist í Morgunblaðinu í dag, 23. maí 2013.

Nú er framfara þörf í framhaldsskólum!

Mikil umræða fer nú fram um nauðsyn þess að auka framleiðni á Íslandi í kjölfar nýlegra tillagna frá „samráðsvettvangi um aukna hagsæld.“ Ljóst er að staðan er þröng og við þurfum öll að skoða hvernig við getum lagt okkar að mörkum til að bæta hag þjóðarinnar.

Rekstur framhaldsskóla þekki ég vel. Tel ég að þar hafi verið dapurlega staðið að málum síðustu ár og einstök tækifæri til að bæta íslenska skólakerfið hafi ekki verið nýtt. Reyndar er ég þeirrar skoðunar að stór skref hafi verið stigin afturábak bæði með aðgerðum og ekki síður með aðgerðaleysi.

Vandinn er víða. Meðal námstími til útskriftar í íslenskum framhaldsskólum er 5,5 ár. Það eru óviðunandi námsafköst. Tölur Hagstofu Íslands um brottfall nemenda í framhaldsskólum sýna að fjöldi þeirra sem ljúka skólanum á fjórum árum eða skemmri tíma er einungis 44% af hverjum árgangi. Það er einnig óviðunandi. Vafalítið má að hluta til kenna agaleysi nemendanna sjálfra og aðstandenda þeirra um þetta. Hitt er þó jafn líkleg skýring á þessu að skólakerfið býður ekki lausnir sem henta stórum hluta ungs fólks. Tölurnar tala skýru máli; engin leið er að mótmæla þeim. Breytinga er þörf. Ná verður fram aukinni skilvirkni í skólakerfinu, bæði hvað varðar námsframvindu nemenda og hagkvæmni skólanna. Við úrlausn málsins verður að skapa aðstæður sem tryggja vilja til framfara með hag nemenda og þjóðar að leiðarljósi. Andstaða við breytingar má ekki drepa málið.

En hvers vegna er framhaldsskólakerfið ekki skilvirkara?

Flestir framhaldsskólar landsins eru reknir af ríkinu. Við þá skóla starfa stjórnendur og kennarar sem ekki hafa persónulega hag af árangri nemenda og skilvirkni í rekstrinum. Ekki hvarflar þó að mér að halda því fram að þar séu allir áhugalausir um skólastarfið. Svo er auðvitað alls ekki en hinu er þó ekki að neita að ansi oft ríkir innan skólanna áhugaleysi um nauðsynlegar breytingar. Framþróun er því jafnvel stöðvuð með orðum um „að ekki er greitt sérstaklega fyrir vinnu við þau verk.“ Slík viðhorf heyrast vart í einkafélögum enda er öllum þar ljóst að slík viðhorf drepa félögin á skömmum tíma. En andstaðan gegn breytingum á starfi skólanna er víðar. Hana má finna hjá samtökum kennara sem of sjaldan taka jákvætt í tillögur að breytingum á skólastarfi enda telja þau jafnan að slíku fylgi aukin vinna og amstur. Andstaðan hefur einnig fundist hjá fráfarandi ráðherra sem hefur lagt sig fram um að drepa frumkvæði, framfarir og jákvæða samkeppni sem fylgir einkarekstri á framhaldsskólastigi.

Hvað er til ráða?

Ljóst er að nauðsynlegt er að auka fjölbreytni í skólakerfinu. Veita þarf einkaskólum möguleika á að starfa á jafnréttisgrundvelli í samkeppni við ríkisrekna framhaldsskóla. Einkaskólar hafa beinan hag af framförum og því að standa sig vel. Í þjóðfélögum þar sem slíkir skólar starfa samhliða skólum sem reknir eru af hinu opinbera er greinilegt að þeir leiða breytingar og framfarir og auka þar með eðlilega samkeppni í kerfinu öllu. Á meðan enginn hefur hag af samkeppni og framförum í skólakerfinu munu engar framfarir verða en stöðnun ríkja. Allir vita að með stöðnun drögumst við aftur úr í samkeppni þjóðanna að bættum lífskjörum. Samkeppnin og framfarirnar koma með einkaskólunum og þar með breytingar til batnaðar. Á grunnskólastiginu er ástandið litlu betra en á framhaldsskólastiginu. Þar eru fáir einkaskólar. Þó er greinilegt að með þeim einkaskólum sem fram hafa komið á síðustu árum hafa blásið ferskir vindar. Með þeim vindum hafa fylgt helstu framfarir sem hafa orðið á því skólastigi.

Til þess að tryggja skoðanafrelsi, framfarir og til að hvetja til aukinnar samkeppni á meðal skóla hafa þjóðir eins og Holland, Svíþjóð og fleiri þjóðir stuðst við ávísanakerfi í námi. Þótt aðferðirnar séu mismunandi felur kerfið það í sér að viss upphæð fylgir hverjum nemanda sem greiðsla frá ríki eða sveitarfélagi til skólans sem valinn er. Nemendur og aðstandendur velja skólann. Einkaskólar verða því að standa sig vel til að tryggja eftirspurn nemenda. Þeim er nauðsynlegt að skólastarfið sé vandað og stöðugt sé leitað nýrra leiða til að bæta það. Nú stöndum við Íslendingar á tímamótum. Við þurfum að leita allra þeirra leiða sem leitt geta af sér betri rekstur og framfarir. Útgjöld þjóðarinnar til menntamála eru mikil. Jafnvel smávægileg aukning afkasta og bættur rekstur skólanna skiptir því miklu máli. Til að ná sem bestum árangri eigum við að leita fyrirmynda hjá fremstu skólaþjóðum heims og auka hlut einkaskóla á öllum skólastigum.

Ólafur Haukur Johnson

höfundur er eigandi og skólastjóri Menntaskólans Hraðbrautar

 

 

Ótrúverðug loforð mennta- og menningarmálaráðherra!

Ótrúverðug loforð mennta- og menningarmálaráðherra!

Ótrúleg grein birtist í Fréttablaðinu 17. apríl eftir Katrínu Jakobsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra og formanns Vinstri grænna undir fyrirsögninni: „Vinstri - græn setja framtíð skólastarfs á oddinn.“

Þetta er ótrúverðug yfirlýsing eftir starf hennar á liðnu kjörtímabili. Vissulega er það rétt að eitt það mikilvægasta sem kosið verður um í komandi kosningum er framtíð skólastarfs í landinu. Það er hins vegar ótrúverðugt að eftir fjögur ár glataðra tækifæra, niðurrifs og stöðnunar hafi nú formaður Vinstri grænna loks áhuga á menntamálum og lofi að gera eitthvað á „næsta kjörtímabili“ er til framfara horfir. Lýsir það vanvirðingu við skólafólk og raunar landsmenn alla. Loforð Katrínar Jakobsdóttur nú hlýtur að kalla fram spurningu um af hverju hún hefur enga tilraun gert til að verja framhaldsskólana þessi ár og af hverju engin uppbygging hefur orðið? Tækifærin hafa verið víða og skólafólk tilbúið að gera mikið í málinu en ekkert frumkvæði hefur komið frá ráðherra. Því  verður kjörtímabilsins sem nú er að ljúka minnst sem ára hinna glötuðu tækifæra í málum framhaldsskólanna. Auðvitað hefur fjárhagsstaða ríkisins til að gera eitthvað fyrir skólana oft verið betri en hún var þetta kjörtímabil. Það þýðir þó ekki að stöðnun og aðgerðaleysi hafi átt að ráða för. Þvert á móti. Tækifæri til að taka á ýmsum vanda voru mörg. Halda vafalítið sumir að ég líti hér aðeins til framkomu hennar gagnvart Menntaskólanum Hraðbraut sem vissulega var afdrifarík og vond fyrir alla landsmenn. Svo er ekki. Ég er að horfa á framkomu hennar gagnvart starfi í framhaldsskólunum öllum. Nefni ég hér tvö dæmi:

1. Betur hefði átt að verja kjör framhaldsskólafólks. Kjör þeirra hafa dregist hratt aftur úr kjörum viðmiðunarstétta og er það fyrst og fremst vegna algers áhugaleysis ráðherra. Þar hafa tækifæri ótvírætt verið fyrir hendi. Taka hefði átt á samningum ríkisins við Kennarasamband Íslands. Þeir samningar eru fyrir löngu úreltir og eru dragbítur á starf skólanna. Raunar eru þeir ein helsta ástæða þess að kaup og kjör kennara hafa versnað og munu að óbreyttu halda áfram að versna. Fullyrði ég að ef ráðherra hefði tekið á því máli hefði mátt með tiltölulega litlu hugmyndaauðgi bæta kjör kennara um allt að 20% án aukakostnaðar fyrir ríkið. Ekki hefði þurft annað en að láta kennara og skólastjórnendur sjálfa leiða breytingar á skólastarfinu þá hefði þær örugglega tekist með ágætum.

2. Ekki aðeins hafa tækifæri til framfara liðið hjá án þess að hafa verið nýtt heldur hefur niðurrif verið stundað af ráðherra. Það að slá á frest að koma í gagnið nýrri almennri námskrá fyrir framhaldsskólana eins og búið var að samþykkja lýsir áhugaleysi, úrræðaleysi og getuleysi. Alls engin ástæða var til að fresta því máli enda hefur sú ákvörðun ekki verið studd nokkrum haldbærum rökum. Tækifærið var einstakt enda er algerlega nauðsynlegt að gera lengd náms í íslenskum skólum hliðstæða því sem er í öðrum löndum. Það bruðl sem felst í því að gera það ekki er með öllu óásættanlegt fyrir íslensk ungmenni og reyndar þjóðina alla.

Fleiri mál má nefna sem hefðu getað leitt framfarir í starfi framhaldsskólanna á þessu kjörtímabili en ég læt hér staðar numið í bili.

Ólafur Haukur Johnson

skólastjóri Menntaskólans Hraðbrautar

 


Síða 1 af 12

Skóladagatal

<<  Janúar 20  >>
 Mán  Þri  Mið  Fim  Fös  Lau  Sun 
    1  2  3  4  5
  6  7  8  9101112
13141516171819
20212223242526
2728293031